Tréverk byggir skólahúsnæði á Siglufirði
Samið hefur verið við Tréverk ehf. um að stækka skólahúsnæði við Norðurgötu 10 á Siglufirði. Byggingin er tveggja hæða steinsteypt hús, samtals 465 fermetrar.
Framkvæmdir hefjast í byrjun febrúar og eru áætluð verklok 15. Ágúst 2014.
Til þess að það gangi upp þurfa aðstæður að vera góðar í vetur því uppsteypa þarf að fara fram núna yfir vetrarmánuðina og verkið þarf að vinnast nokkuð hratt og örugglega.
Það eru ár og dagar síðan tveir byggingakranar hafa verið á lofti á Siglufirði, en eins og komið hefur fram í fréttum eru framkvæmdir hafnar við byggingu 70 herbergja hótels á Siglufirði og eru það fyrst og fremst heimamenn sem koma að því verkefni.


Tréverk hefur hafið framkvæmdir við tvö ný glæsileg parhús við Svarfaðarbraut á Dalvík, þar sem rísa munu samtals fjórar íbúðir. Húsin munu standa við Svarfaðarbraut 19–21 og 23–25 og eru einnar hæðar byggingar með bílskúr og verönd. Íbúðirnar við Svarfaðarbraut 19–21 eru um 140 m² að stærð, en íbúðirnar við 23–25 eru 152 m². Allar íbúðirnar eru rúmgóðar og bjartar, með tveimur svefnherbergjum, alrými, baðherbergi og þvottahúsi með tengingu við bílskúr. Húsin eru hönnuð af Kollgátu arkitektum og eru uppsteypt með álklæðningu í ljósum lit og viðarklæðningu sem setur hlýjan svip á húsin. Aðkoma og bílastæði verða upphituð með snjóbræðslukerfi, og gert er ráð fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla við bílskúra. Framkvæmdir ganga vel og stefnt er að því að íbúðirnar verði til afhendingar í lok næsta árs. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband fyrir nánari upplýsingar.

