Tréverk ehf 60 ára 1. október 2022

Þann 1. október 2022 eru 60 ár liðin frá því Tréverk ehf. var stofnað. Á þessum sex áratugum hefur fyrirtækinu vaxið fiskur um hrygg og er ekki ofsögum sagt að vöxtur þess og viðgangur sé samofinn sögu Dalvíkurbyggðar. Þar hefur frá upphafi verið þungamiðja fyrirtækisins en á síðari árum hefur það einnig tekið að sér stór verkefni í nágrannabyggðum. Mikill meirihluta verkefna Tréverks frá stofnun fyrirtækisins hefur verið á Norðurlandi, frá Fljótum og austur í Þingeyjarsýslur, en einnig má nefna viðamikil verkefni austur á Reyðarfirði.


Að stofnun Tréverks fyrir sextíu árum stóðu fimm sjálfstæðir trésmiðir; Aðalberg Pétursson, Bragi Jónsson, Hallgrímur Antonsson, Ingólfur Jónsson og Sveinn Jónsson. Ingólfur var fyrsti framkvæmdastjóri Tréverks og gegndi starfinu til ársins 1981 en þá tók Bragi Jónsson við og var framkvæmdastjóri í átta ár, til ársins 1989 er Björn Friðþjófsson, núverandi framkvæmdastjóri, tók við og hefur því stýrt fyrirtækinu í um þrjátíu og þrjú ár.


Nú eru sex hluthafar í Tréverki: Björn Friðþjófsson, Guðmundur Ingvason, Hafþór Gunnarsson, Ívar Örn Vignisson, Kristján Elí Örnólfsson og Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson. Í stjórn fyrirtækisins eru Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson, formaður, Guðmundur Ingvason og Hafþór Gunnarsson.


Frá upphafi hefur fyrirtækið verið til húsa að Grundargötu 8-10 á Dalvík þar sem eru skrifstofur og trésmíðaverkstæði. Hjá Tréverki eru nú 25 starfsmenn í fullu starfi. Yfir sumartímann, þegar jafnan eru mest umsvif í útiverkum, starfa um 30 starfsmenn hjá fyrirtækinu.


Það fer ekki hjá því að á sextíu árum er verkefnalisti Tréverks langur; íbúðarhúsnæði af ýmsum toga, atvinnuhúsnæði og opinberar byggingar. Fyrsta stóra verkefnið var bygging orlofshúsa á Illugastöðum í Fnjóskadal fyrir verkalýðsfélögin í Eyjafirði á sjöunda áratugnum. Af stórum verkefnum á Dalvík má nefna Ráðhúsið, verksmiðjuhús Sæplasts, Dalvíkurskóla, Svarfdælabúð, íþróttamiðstöðina (íþróttahús og sundlaug) og Menningarhúsið Berg. Stór verkefni á Akureyri hafa t.d. verið viðbygging Háskólans á Akureyri við Sólborg, íþróttahús Síðuskóla, nýbygging Húsasmiðjunnar, ýmsir verkþættir við byggingu verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs, breytingar á húsnæði gamla Iðnskólans á Akureyri í Icelandair hótel og stækkun Dvalarheimilisins Hlíðar. Utan Eyjafjarðar skal getið um byggingu lúxushótels á Deplum í Fljótum.


Á sextíu ára afmæli Tréverks er verkefnastaða fyrirtækisins góð. Stærsta verkefnið er breytingar á einni álmu Glerárskóla á Akureyri. Í þeim felst endurnýjun á þaki, endurinnrétting álmunnar og viðbygging. Því verki á að skila í júní 2024. Fljótlega hefjast framkvæmdir við byggingu parhúss við Hringtún á Dalvík. Í byrjun október lýkur Tréverk umfangsmiklu viðhaldsverkefni á Dalbæ – heimili aldraðra á Dalvík.


Á þessum tímamótum fara starfsmenn Tréverks og makar í afmælisferð til útlanda þann 26. október nk. Þá hefur stjórn fyrirtækisins ákveðið að í tilefni af 60 ára afmælinu verði tekin saman saga Tréverks frá stofnun þess. Óskar Þór Halldórsson, fyrrverandi blaða- og fréttamaður, hefur tekið verkið að sér. Öflun heimilda er þegar hafin og verður unnið að verkinu á næstu mánuðum.

Verkstæði Tréverks árið 1967

Ingólfur, fyrsti framkvæmdastjóri Tréverks í símanum

Fyrsta stóra verk Tréverks var uppbygging sumarbústaðabyggðar á Illugastöðum


Eftir Rúnar Helgi Björnsson 16. október 2025
Tréverk hefur hafið framkvæmdir við tvö ný glæsileg parhús við Svarfaðarbraut á Dalvík, þar sem rísa munu samtals fjórar íbúðir. Húsin munu standa við Svarfaðarbraut 19–21 og 23–25 og eru einnar hæðar byggingar með bílskúr og verönd. Íbúðirnar við Svarfaðarbraut 19–21 eru um 140 m² að stærð, en íbúðirnar við 23–25 eru 152 m². Allar íbúðirnar eru rúmgóðar og bjartar, með tveimur svefnherbergjum, alrými, baðherbergi og þvottahúsi með tengingu við bílskúr. Húsin eru hönnuð af Kollgátu arkitektum og eru uppsteypt með álklæðningu í ljósum lit og viðarklæðningu sem setur hlýjan svip á húsin. Aðkoma og bílastæði verða upphituð með snjóbræðslukerfi, og gert er ráð fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla við bílskúra. Framkvæmdir ganga vel og stefnt er að því að íbúðirnar verði til afhendingar í lok næsta árs. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband fyrir nánari upplýsingar.
1. nóvember 2024
Tréverk ehf hefur hafið framkvæmdir við byggingu fjölbýlishús við Dvergaholt 1 á Akureyri. Um er að ræða fjölbýlishús á tveimur hæðum með 10 íbúðum. Áætluð verklok eru vorið 2026.
Fleiri færslur